Rektorsframboð 2025
Magnús Karl Magnússon, prófessor
Háskóli Íslands hefur alla burði til að vaxa og dafna á næstu árum. Háskólamenntun á grunnnámsstigi hvílir á traustum undirstöðum. Rannsóknastarfsemi hefur aukist verulega á síðastliðnum árum og samhliða því rannsóknatengt framhaldsnám, sem þarf að styrkja enn frekar. Háskólinn gegnir grundvallarhlutverki í íslensku samfélagi. Með skýrri framtíðarsýn og góðri stefnumótun þarf að tryggja áframhaldandi vöxt sem byggir á gæðum og það krefst í senn betri og stöðugri fjármögnunar af hálfu ríkisvaldsins, ennþá meiri og ríkari alþjóðlegra tengsla og samskipta og að rækt sé lögð við að byggja upp aðlaðandi umhverfi sem stuðlar að auknum og bættum samskiptum um kennslu, nám og rannsóknir.
Ég hef mikla reynslu af störfum innan skólans; ég hef gegnt stöðu prófessors við Læknadeild í tæp sextán ár og hef allan þann tíma sinnt mikilli kennslu og verið mjög virkur í rannsóknum. Ég hef víðtæka rannsóknarþjálfun og reynslu á sviði grunnvísinda læknisfræðinnar allt frá grunnnámi mínu, gegnum framhaldsnám í Bandaríkjunum og við Landspítalann áður en hóf störf við skólann. Auk þess hef ég víðtæka stjórnunarreynslu, var meðal annars forseti Læknadeildar í tvö tímabil, sem er ein stærsta deild skólans, og hef sinnt fjölmörgum öðrum stjórnunar- og nefndarstörfum innan háskóla- og vísindasamfélagsins og utan. Einnig hef ég tekið þátt í samfélagsumræðu um háskólann, fjármögnun hans og uppbyggingu í yfir 20 ár. Í ljósi þessa tel ég mig hafa þá reynslu og þekkingu sem þarf til að verða öflugur leiðtogi og málsvari skólans.
Ég hef allan minn feril frá því ég var í grunnnámi við Læknadeild verið þátttakandi í grunnvísindastörfum. Ég tók valkvætt aukaár þar sem ég vann við rannsóknir í frumulíffræði æðaþelsfruma undir handleiðslu Guðmundar Þorgeirssonar, prófessors. Sem unglæknir hér heima áður en hélt til framhaldsnáms vann ég að faraldsfræði hjartasjúkdóma. Í framhaldsnámi mínu, fyrst við University of Wisconsin, Madison (1994-1998) lauk ég sérhæfðri akademískri sérnámsleið „Clinical Investigator Pathway“ sem var hugsuð fyrir sérnámslækna með verulega rannsóknarreynslu sem undirbúningur fyrir akademískan feril. Þar stundaði ég rannsóknir í frumulíffræði á sviði blóðsjúkdóma. Í seinni hluta framhaldsnáms míns í blóðsjúkdómum stundaði ég rannsóknarstörf í sameindalíffræði blóðsjúkdóma með áherslu á stofnfrumur og hvítblæði. Ég vann þar við National Institutes of Health, í úthverfi Washington DC (1998-2002) en það er ein stærsta rannsóknamiðstöð Bandaríkjanna á sviði heilbrigðis- og lífvísinda. Á öllum þessum stigum birti ég vísindagreinar í virtum alþjóðlegum vísindaritum.
Ég flutti heim árið 2002 og hóf störf við Landspítala en þar setti ég upp grunnrannsóknarstofu í Læknagarði og hóf fljótlega rannsóknarsamvinnu við Þórarinn Guðjónsson, fyrst við Rannsóknastofu Krabbameinsfélagsins og síðan við Læknadeild. Eftir að ég fékk stöðu prófessors við Læknadeild HÍ árið 2009 hélt ég áfram nánu rannsóknarsamstarfi við Þórarinn Guðjónsson, prófessor. Í sameiningu komum við á fót og rákum rannsóknastofu á sviði frumu- og sameindalíffræði með áherslu á stofnufrumu- og krabbameinsfræði. Við útskrifuðum saman sex doktorsnema, sex meistaranema og í okkar rannsóknarhópi störfuðu einnig fjórir nýdoktorar og einn læknir. Frá árinu 2018 breytti ég rannsóknaáherslu minni og hef verið í hlutastarfi við Íslenska erfðagreiningu þar sem ég hef stýrt mannerfðarannsóknum á sviði blóðsjúkdómafræða. Þar hef ég einnig leiðbeint doktorsnemum, einn þeirra hefur þegar útskrifast og í dag leiðbeini ég einum doktorsnema og er umsjónarkennari tveggja annarra. Ég hef einnig verið andmælandi við fimm doktorsvarnir (þrjár á Íslandi, eina í Danmörku og eina í Frakklandi). Samhliða þessum kennslu- og rannsóknarstörfum hef ég gegnt viðamiklum stjórnunar- og nefndarstörfum (sjá hér að neðan).
Ég hef hlotið fjölmarga styrki frá Rannsóknarsjóði Vísinda- og nýsköpunarráðs (áður Vísinda- og tækniráð, VTR). Ég ritstýrði og leiddi umsókn frá stórum hópi vísindamanna, „Markáætlun um erfðafræði í þágu heilbrigðis“, sem hlaut markáætlunarstyrk á árunum 2005-2009. Þessi styrkur var undanfari og leiddi til stofnunar Lífvísindaseturs HÍ. Ég hef hlotið þrjá verkefnastyrki frá Rannsóknarsjóði VTR og einn styrk gegnum markáætlun um erfðafræði í þágu heilbrigðis (frá VTR). Einnig hef fengið öndvegisstyrk frá Rannsóknarsjóði VTR og verkefnastyrk frá Rannsóknarsjóði VTR í samvinnu við Þórarinn Guðjónsson og annan öndvegisstyrk frá Rannsóknarsjóði VTR í samvinnu við Þórarinn og fleiri vísindamenn. Ég hlaut einnig árið 2005 veglegustu vísindaverðlaun á Íslandi úr Verðlaunasjóði Árna Kristinssonar og Þórðar Harðarsonar í læknisfræði. Einnig hef ég hlotið fjölda smærri styrkja svo sem frá Landspítala og Háskóla Íslands.
Ég hef þannig umfangsmikla reynslu af grunnrannsóknum til fjölda ára, hef handleitt marga meistara- og doktorsnema og hef því djúpan skilning á eðli vísinda- og fræðastarfs.
Ég hef í öll þau 16 ár sem ég hef starfað við Háskóla Íslands haft viðamikla kennsluskyldu innan ólíkra deilda Heilbrigðisvísindasviðs. Þar má meðal annars nefna grundvallarkúrs í Læknadeild á þriðja námsári í Lyfja- og eiturefnafræði (14 einingar) sem ég haft umsjón með (í samvinnu við Kristínu Ólafsdóttur, dósent) en þar hef ég kennt á hverju ári allt frá ráðningu minni við skólann. Ég hef lagt mikla áherslu á samtal við nemendur, reynt að kalla fram skilning á námsefninu og tengja saman grunnskilning á líffræði mannslíkamans við verkun lyfja. Ég hef ávallt fengið mjög góðar umsagnir nemenda fyrir kennslu mína. Því til stuðnings má m.a. nefna að ég hef tvívegis hlotið viðurkenningar frá Félagi læknanema, annars vegar kennsluverðlaun félagsins árið 2012 og heiðursverðlaun þess árið 2017. Einnig hlaut ég kennsluverðlaun læknanema við University of Wisconsin árið 1996 fyrir klíníska kennslu.
Ég tel að kennslu- og vísindastörf háskólakennara séu nátengd og nærist hvort á öðru. Háskólakennsla þarf að veita nemendum innsýn inn í þróun og framfarir innan fræðasviðsins og þarf að vekja forvitni nemenda á þekkingarsköpun og framþróun fagsins.
Ég hef gegnt fjölmörgum stjórnunar- og nefndarstörfum. Ég var forseti Læknadeildar á árunum 2013-16 eftir að hafa gegnt stöðu varadeildarforseta (2011-13). Læknadeild er ein stærsta deild Háskólans með yfir 100 akademíska starfsmenn, margar námsleiðir (m.a. læknisfræði, sjúkraþjálfun, lífeindafræði, geislafræði) á öllum námsstigum og mikil umsvif í rannsóknum. Meðan ég var deildarforseti stýrði ég meðal annars fyrsta sjálfsmati deildarinnar sem var mjög flókin greiningar- og stefnumótunarvinna. Sem deildarforseti hafði ég leiðandi hlutverk á fjölmörgum sviðum, meðal annars mannaráðningum, flóknum störfum er snúa að samþættingu háskóla- og klínískra starfa stórs hóps akademískra starfsmanna deildarinnar og flóknum starfsmannamálum sem koma upp í svo stórri deild. Ég hef einnig verið formaður stjórna tveggja þverfaglegra eininga inna skólans; námsleið í Talmeinafræði (meistaranám) og síðastliðin sex ár við Miðstöð í lýðheilsvísindum (MLV), en þar fer fram þverfræðilegt nám á meistara- og doktorsstigi í lýðheilsuvísindum, faraldsfræði og líftölfræði.
Ég hef auk þess víðtæka reynslu af nefndarstörfum og má þar nefna mikilvæg nefndarstörf á sviði vísinda, svo sem seta í fagráði Heilbrigðis-og lífvísinda fyrir Rannsóknarsjóð VTR á árunum 2004-2008 og ég var formaður fagráðsins frá 2005-2008. Ég var einnig landsfulltrúi í sjöundu Rammaáætlun Evrópusambandsins (2006-2008). Á árunum 2014-2021 sat ég í fimm manna verðlaunanefnd (valnefnd) Anders Jahre læknisfræðiverðlaunanna (Anders Jahre’s Awards for Medical Research), en þau eru ein virtustu verðlaun sem veitt er á sviði læknavísinda á Norðurlöndunum. Ég hef síðastliðin tvö ár einnig verið formaður stjórnar Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins en sjóðurinn hefur á undanförnum sjö árum veitt vísindastyrki til krabbameinsrannsókna fyrir yfir hálfan milljarð króna. Á síðasta ári var ég skipaður formaður nýrrar faglegrar ritstjórnar Vísindavefs Háskóla Íslands. Að lokum má nefna nefndarstörf á vegum ráðuneyta svo sem nefnd sem kom að samningu lagafrumvarps um stofnfrumurannsóknir og lagafrumvarp um vísindarannsóknir á heilbrigðissvið auk nefndar um nýtingu erfðaupplýsinga.
Í gegnum þessi og fleiri stjórnunar- og nefndarstörf hef ég öðlast mikla reynslu af stjórnun og stefnumótun. Einnig hafa þessi störf ásamt umfangsmikilli reynslu af stjórnun flókinna rannsóknarverkefna kallað á leiðtogahæfileika og ríka samskiptahæfni.
Allt frá því ég flutti heim hef ég tekið mjög virkan þátt í samfélagsumræðu um gildi vísinda, fjármögnun háskóla og vísindasjóða. Einnig hef ég lagt mig fram í almenningsfræðslu og má þar nefna umræðu og skrif um heilbrigðismál í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, meðal annars á viðsjárverðum tímum Covid-19 farsóttar. Einnig hef ég skrifað mikið um málefni heilabilunar og látið til mín taka á þeim vettvangi. Ég sit meðal annars í stjórn Alzheimer samtakanna og var einn fulltrúa aðstandenda heilabilaðra í ráðgjafarnefnd Evrópsku Alzheimer samtakanna.
Framtíðarsýn fyrir Háskóla Íslands
Háskóli Íslands er ein af grundvallarstofnunum samfélagsins. Skólinn hefur víðtæku hlutverki að gegna í háskólamenntun og rannsóknum á fjölmörgum fræðasviðum. Hann hefur í meira en heila öld verið grunnur háskólamenntunar í landinu og á síðustu áratugum hefur skólinn jafnframt orðið alþjóðlegur rannsóknaháskóli sem býður upp á fjölbreyttar námsleiðir á meistara- og doktorsstigi. Hann gegnir því sífellt stærra hlutverki við að treysta undirstöður atvinnulífs og verðmætasköpunar í landinu og styrkja stoðir menningar og þjóðfélagslegs sjálfsskilnings.
Háskólinn er máttarstólpi í íslensku rannsóknasamfélagi sem nýta þarf með kerfisbundnum hætti til að efla háskólasamfélagið í heild sinni. Um leið er sterk staða Háskóla Íslands í alþjóðlegu samfélagi háskólastofnana lífsspursmál fyrir íslenskt þjóðfélag. Eitt grundvallarhlutverk rektors næstu fimm ár er að tryggja og efla forystuhlutverk Háskóla Íslands og gera honum kleift að þjóna íslensku rannsóknasamfélagi í heild sinni. Aðeins þannig getur hann nýst íslensku samfélagi til fulls.
Við stöndum frammi fyrir aukinni óvissu á alþjóðavettvangi á sama tíma og Ísland þarf að takast á við sífellt flóknari áskoranir af samfélagslegum, umhverfislegum og alþjóðapólitískum toga. Á slíkum tímum þarf Háskóli Íslands að vera sú stofnun sem stjórnvöld og aðrir aðilar samfélagsins geta leitað til og treyst á. Háskólinn er vígi þekkingar og um leið aðhalds gagnvart ásælni og undirróðri afla sem vilja notfæra sér óvissu og óöryggi í eiginhagsmunaskyni frekar en að vera samfélaginu til gagns.
Innra starf Háskóla Íslands verður í senn að stuðla að auknum gæðum hans og starfsumhverfi sem dregur fram bestu hliðar þeirra sem við hann starfa og tryggir að mannauður, fjölbreytileiki og góð menntun njóti sín. Háskólinn þarf að vera eftirsóttur vinnustaður sem býður upp á áþekk kjör og sambærilegar stofnanir og getur keppt um besta fólkið á innlendum sem alþjóðlegum vettvangi. Aðeins þannig getur Háskólinn búið nemendum framúrskarandi námsumhverfi þar sem miklar kröfur eru gerðar jafnt til nemenda, akademískra starfsmanna og annars starfsliðs skólans.
Betri fjármögnun Háskóla Íslands
Markmiðið er að framlög til Háskólans séu sambærileg við framlög nágrannaþjóða okkar til háskólamenntunar. Sú vanfjármögnun sem Háskólinn stendur frammi fyrir þrengir að gæðum hans og grefur undan innviðum skólans. Það er brýnt að varðveita þá breidd í námi og rannsóknum sem Háskóli Íslands býr yfir, einn íslenskra háskóla. Tryggja þarf fjárhagslega afkomu fjölmargra mikilvægra en jafnframt fámennra námsleiða, en margar slíkar námsleiðir eru innan skólans.
Endurskoða umgjörð og rannsóknir framhaldsnáms
Framhaldsnám við Háskóla Íslands hefur aldrei haft viðunandi fjármögnunarlíkan og er löngu komið að þolmörkum. Brýnt er að tryggja styrk þess í samanburði við erlenda háskóla og leggja skýra áherslu á alþjóðlegt samstarf. Auk þess þarf að sjá til þess að fjármögnun rannsóknatengds framhaldsnáms sé í samræmi við umfang þess og fjármögnunarlíkan tryggi gæði námsins. Slík fjármögnun varðar gæði einstakra doktorsverkefna en einnig þarf hún að stuðla að góðu rannsóknaumhverfi fyrir doktorsnema þar sem innviðir, þverfagleg samskipti og rík tenging við það sem er efst á baugi alþjóðlega í fræðunum eru í fyrirrúmi.
Efla háskólasamfélagið
Háskólasamfélag er hornsteinn góðs háskóla. Það nærist á samtali og samvinnu kennara, nemenda og annars starfsfólks og til þess þarf vettvang fyrir samveru og samskipti. Háskóli Íslands þarf að leggja áherslu á háskólann sem samverustað þar sem nemendur og akademískir starfsmenn eiga fjölbreytta möguleika á að hittast og ræða saman. Gæði háskólanáms byggjast að miklu leyti á virku samtali nemenda og kennara og einnig á náinni samvinnu nemenda utan hefðbundinna kennslustunda. Umhverfi á háskólasvæðinu og í byggingum skólans þarf að auðvelda þetta, meðal annars með mötuneytum, kaffisölum og opnum vinnusvæðum. Einnig þarf að huga að óformlegri viðburðum sem efla háskólasamfélagið og auka samræðu og kynni ólíkra hópa.
Beita embætti rektors af festu
Háskóli Íslands hefur á undanförnum árum notið alþjóðlegrar viðurkenningar sem öflugur háskóli á helstu fræðasviðum, en þessi staða er ekki sjálfgefin. Tala þarf skýrt um mikilvægi háskóla sem grunn margvíslegra verðmæta á sviðum vísinda, nýsköpunar, menningar og lista og aflvaka félagslegs réttlætis, heilbrigðs mannlífs, öflugrar menntunar og efnahagslegrar hagsældar. Rektor Háskóla Íslands hefur einstaka stöðu til að vera málsvari þessara gilda.
Efla rannsóknir og rannsóknarvitun
Öflugt rannsóknastarf er nauðsynlegur drifkraftur nýliðunar í háskólum með aðkomu nýdoktora og nýrra akademískra starfsmanna, auk þess sem slík uppbygging er forsenda nýsköpunar á öllum sviðum atvinnulífs. Mjög mikilvægt er að rektor beiti sér fyrir því í að opinberir sjóðir vísinda, sérstaklega sjóðir Vísinda og nýsköpunarráðs verði stórlega efldir. Slíkir sjóðir tryggja fjármögnun beint til vísindaverkefna og -innviða og lúta afdráttarlausum faglegum kröfum um mat á gæðum umsókna. Öflugt innlent sjóðakerfi vísinda er einnig forsenda þess að hér vaxi öflugt fræðafólk með alþjóðleg tengsl sem getur aflað enn stærri styrkja á erlendum vettvangi. Einnig skiptir miklu máli að huga að styrkum stoðum fyrir nýdoktorastörf við skólann. Nýdoktorar gegna veigamiklu hlutverki við að ryðja nýjar brautir í rannsóknastarfi, skapa sér sjálfstæðan rannsóknaferil og koma að kennslu og þjálfun á ýmsum stigum háskólanáms.
Efla gæði kennslu
Mikilvægt er að halda áfram að auka gæði kennslu við háskólann. Efla þarf vandaða kennsluhætti innan Háskóla Íslands, auka fjölbreyttni í kennslu, umbuna fyrir fyrirmyndar kennsluframlag og auka sveigjanleika í starfsframlagi milli rannsókna og kennslu.
Draga úr vinnu nemenda með námi
Of margir háskólanemar vinna samhliða fullu háskólanámi. Það er mikið hagsmunamál fyrir háskólamenntun í landinu að námsmönnum sé veittur nægilegur fjárhagslegur stuðningur svo þau megi helga sig háskólanámi. Háskólayfirvöld eiga að leggja samtökum stúdenta lið í þessari hagsmunabaráttu.
Auka samstarf milli deilda og fræðasviða
Einn helsti styrkur Háskóla Íslands liggur í fræðilegri breidd skólans, en sú breidd er jafnfram ein mesta áskorun hans í litlu samfélagi. Draga þarf markvisst úr hindrunum fyrir fræðilegu samstarfi, bæði við kennslu og rannsóknir. Hyggja þarf sérstaklega að hvötum í fjárhagslíkani skólans sem aukið geta og eflt slíkt samstarf. Ekki síst þarf að efla samstarf í greinum sem Háskólinn hefur einsett sér að sinna, en þjóna fámennum nemendahópum. Áhersla á rannsóknatækifæri og aukið samstarf er lífsnauðsynlegt fyrir slíkar greinar og stuðlar einnig að betri nýtingu þeirrar sérþekkingar sem Háskóli Íslands hefur yfir að ráða.
Jafnrétti í framkvæmd
Jafnrétti er grunnstoð og -gildi í starfi Háskóla Íslands. Háskólinn hefur sett sér metnaðarfullar og skýrar áætlanir en stöðugt má gera betur við innleiðingu, framkvæmd og eftirfylgni. Lýðfræðileg samsetning Háskóla Íslands hefur breyst mikið á síðustu tíu árum, samhliða því að jafnréttishugtakið hefur nú víðari skírskotun og gerðar eru mun skýrari kröfur um eftirfylgni og árangur en áður. Það þarf að skapa stúdentum og starfsfólki jöfn tækifæri til að taka virkan þátt í starfi Háskólans, jafnt námsmönnum af erlendum uppruna, námsmönnum með börn, fólki með fötlun, og öðrum. Við þurfum að hugsa nýjar leiðir til að takast á við þær áskoranir sem koma upp, þetta á við um viðbrögð við ásökunum um kynbundna og kynferðislega áreitni en þetta snýr einnig að kennslu og kennsluháttum. Við þurfum að hugsa um jafnrétti, jöfn tækifæri og fulla þátttöku á skapandi hátt og í samvinnu ólíkra aðila.
Efla innviði og stuðla að nýliðun
Vaxandi álags og þreytu gætir hjá starfsfólki skólans og því þarf að gæta að velferð starfsfólks, jafnrétti og öryggi. Huga þarf sérstaklega að góðri starfsaðstöðu sem sniðin er að þörfum hvers fræðasviðs og möguleikum starfsfólks til að vaxa og þróast í sínum störfum. Efla þarf þátttöku starfsfólks í skipulagi, stjórnun og mótun framtíðarsýnar skólans og auka áhrif þess á stefnumótandi ákvarðanir.